• Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon

Íslensku fuglarnir

1/4
Verkin eru unnin úr tvenskonar efni, laser max og pl gleri,  sérstakri tækni er beitt til að rasta í efnið og gefur fuglunum þetta einstaka útlit.   Verkin eru hin mestu híbýlaprýði, frábær gjöf sem er bæði  Þjóðleg og fræðandi. Fuglarnir  eru afhentir  í fallegum gjafakassa hverjum kassa fylgir upprúllað blað með ljóðum og skemmtilegum sögum.
Þessi lesning er bæði á íslensku og ensku. Hæt er að lesa textan hér neðst  á síðunni.
 
 

Hér er hægt að lesa um hönnunina og fyrirtækið www.dv.is/lifsstill/2016/12/1/islensku-fuglarnir-eru-ny-vorulina-fra-graf/

 Textinn er fylgir með.      

 

Hrafninn.

Hrafninn, stærstur allra spörfugla, er einn af einkennisfuglum íslenskrar náttúru.  Hrafninn er algengur í villtri náttúru um allt land sem í mannabyggð. Hrafninn er staðfugl og dvelst hér á landi allt árið um kring. Líkt og hann sýnir fósturjörð sinni tryggð, makar hann sig fyrir lífstíð. Hrafninn þykir bæði þjófóttur og glysgjarn og hefur frá manna minnum verið samtvinnaður íslenskum þjóðsögum og hjátrú. Látbragð hrafnsins hefur lengi verið manninum huglægt og boðar undarlegt háttalag þessa gáfaða fugls oft hinar ýmsu hættur. Ein saga segir frá því að hrafn einn hafði vanið komur sínar á ónefndan bæ undir fjalli og þegið þar matargjafir frá konu er þar bjó. Dag einn lét hann þó óstirðlega, vakti það athygli konunnar sem elti hrafninn frá bæ sínum. Er hrafninn og konan höfðu fjarlægst bæinn, töluverðan spöl, heyrðust ægilegar drunur, snjóflóð hafði kaffært bæinn. Launaði hann henni þar matargjafirnar. Hrafna-Flóki notaði þrjá hrafna, einn í senn, til þess að finna Ísland á leið sinni frá Noregi. Sá fyrsti flaug heim til Noregs,  næsti hringsólaði um himininn þar til hann settist aftur á skipið því ekkert land var að finna. Sá þriðji flaug til Íslands. Hrafna-Flóki er einn af fyrstu landnámsmönnunum og talið er að hann hafi gefið eyjunni nafn sitt, Ísland. Hrafnar Óðins, æðsta guðs norrænnar goðafræði, flugu um heim allan á hverjum degi og settust svo að kvöldi  á axlir Óðins og krunkuðu í eyru hans öllu því sem þeir höfði séð og heyrt. Flug hrafna boða annað hvort fararheill eða feigð, eftir því úr hvaða átt þeir fljúga yfir mann. Margar vel þekktar vísur hafa einnig verið samdar um hrafninn sem gengur oft undir nafninu krummi.

 

 

 

Á sér krummi ýfði stél
einnig brýndi gogginn vel,
flaug úr fjallagjótum.
Lítur yfir byggð og bú
á bænum fyrr en vakna hjú,
veifar vængjum skjótum.

 

 

Sálaður á síðu lá
sauður feitur garði hjá,
fyrrum frár á velli.
Krunk, krunk, nafnar komið hér,
krunk, krunk, því oss búin er
krás á köldu svelli.

                                     - Jón Thoroddsen

Rjúpan

Rjúpan, eini villti hænsnfuglinn á Íslandi, hefur lengi verið Íslendingum hugleikin. Ásamt því að vera mikilvæg íslenska vistkerfinu er hún tákn um hið fagra og ljúfa í náttúrunni. Rjúpan er staðfugl svo hún dvelst  á landinu allt árið um kring. Aðlögunarhæfni hennar er einstök en hún skiptir um bolfiður þrisvar á ári. Rjúpan sker sig frá öðrum íslenskum fuglategundum að því leyti að hún nam hér land frá vestri, en aðrar tegundir settust að frá austri. Söngur rjúpunnar, síendurtekin rophljóð, er eitt af vorboðum Íslands og einkennishljóð heiðlanda. Er það karlfuglinn eða karrinn, sem syngur svo í leit að maka. Mestur er atgangurinn í ljósaskiptum kvölds og morgna. Sumir karrar enda þó einsamir á meðan aðrir taka sér einn eða fleiri maka. Rjúpan á sér marga óvini í náttúrunni og má þar helst nefna fálkann, sem lifir að mestu aðeins á rjúpunni. Á fengitímabilinu verður karrinn að auðveldri bráð er hann sperrir sig á háum hólum, reisir rauðan kambinn og breiðir úr svörtu  stélinu. Fræg er þjóðsagan er segir frá því er María mey boðaði alla fugla á sinn fund og skipaði þeim að vaða bál. Allir fuglarnir hlýddu skipun Maríu og er þeir komu í gegnum eldinn voru fætur þeirra fiðurlausir og sviðnir. Allir nema rjúpan sem óhlýðnaðist Maríu. Lagði hún því á rjúpuna bölvun þá að hún skyldi verða ofsótt að bróður sínum, fálkanum, um ókomna tíð en lagði henni þó þá líkn að skipta um lit; hvít á veturna líkt og snjórinn og mógrá að sumri til líkt og lyngmóinn. Þegar fálki hefur vegið rjúpu og gert að krás sinni sér hann er hann kemur að hjarta hennar að hún er systir hans og fyllist hann því óvæginni sorg og vælir svo nístir að merg og beini. Fálkinn er þó ekki sá eini sem sækir að rjúpunni en maðurinn hefur veitt hana allt frá landnámi.  Á árum áður var rjúpan matur fátæka fólksins. Á fyrri hluta síðustu aldar var rjúpan mikil tekjulind fyrir íslendinga en talið er að um milljón rjúpur hafi verið fluttar úr landi á árunum 1924-1927. Í dag eru öll viðskipti með rjúpur og rjúpnaafurðir bönnuð. Enn ganga menn þó á fjöll

í leit að rjúpu svo segja má að rjúpnaveiði, meðhöndlun og neysla á rjúpunni sé mikilvægur

hluti af menningu þjóðarinnar. Því fyrir marga er rjúpnasteik og ilmurinn sem

henni fylgir algjörlega ómissandi hluti af jólahefð íslendinga.

 

Ein er upp til fjalla,
yli húsi fjær,
út um hamrahjalla,
hvít með loðnar tær,
brýst í bjargarleysi,
ber því hyggju gljúpa,
á sér ekkert hreysi
útibarin rjúpa.

Valur í vígahuga
varpar sér á teig,
eins og fiskifluga
fyrst úr löngum sveig
hnitar hringa marga;
hnýfill er að bíta;
nú er bágt til bjarga,
blessuð rjúpan hvíta!   

                                             -Jónas Hallgrímsson.